Samtök atvinnulífsins (SA) krefjast þess að forsætisráðherra beiti sér fyrir því að áfrýjun umhverfisráðherra á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verði dregin til baka. Héraðsdómur ógilti ákvörðun umhverfisráðherra um að synja staðfestingar aðalskipulagi Flóahrepps þann 17. september síðastliðinn.

SA skora á forsætisráðherra að sjá til þess að ríkislögmaður falli frá umræddri áfrýjun. Samtökin segja að áfrýjun mun ekki hafa neitt í för með sér annað en kostnað fyrir forsætisráðuneytið.

„SA álíta að umhverfisráðherra hafi með framferði sínu í þessu máli sýnt óbilgirni og þjónkun við þrönga pólitíska hagsmuni og þar með stórskaðað endurreisn íslensks atvinnulífs. Slíkt framferði gengur þvert á öll loforð forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og hlýtur forsætisráðherra að velta fyrir sér stöðu ráðherra sem þannig haga sér,“ segir í tilkynningu frá SA.