Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að settar verði reglur um fjármál sveitarfélaga til þess að koma í veg fyrir skuldasöfnun eða útgjaldavöxt hins opinbera. Samtökin benda á að í flestum ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) hafi ríkisvaldið sett fjármálareglur sem gilda fyrir lægri stjórnsýslustig. Með slíkum relgum er stefnt að því að tryggja markmið í hagstjórn og stöðugleika í efnahagslífinu.

„SA telja mikilvægt að slíkar reglur verði settar á Íslandi en umsvif sveitarfélaga hafa aukist verulega á undanförnum árum,“ segir í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins. Þar segir að til þess að tryggja virkni fjármálareglna sé meðal annars notast við viðurlög. Í nokkrum ríkjum eru sveitarfélög sektuð ef þau ná ekki settum markmið. „Algengustu viðurlög við brotum á settum fjármálareglum eru hins vegar stjórnunarlegs eðlis, þar sem ríkisvaldið annað hvort leggur til eða fyrirskipar tilteknar aðgerðir eða takmarkar svigrúm sveitarfélaganna.“

„Algengasta fjármálareglan lýtur að hallalausum rekstri en flest sveitarfélög í OECD ríkjunum búa einnig við takmarkanir við lántökum. Sum ríki banna alveg lántöku sveitarfélaga til reksturs, t.d. Danmörk, og heimila langtímalán einungis til fjárfestinga. Í mörgum löndum eru einnig settar takmarkanir við lántökur fyrirtækja í eigu sveitarfélaga en algengur farvegur fyrir skuldasöfnun sveitarfélaga er í gegnum fyrirtæki í þeirra eigu. Einnig hafa verið settar takmarkanir við lánveitingum fyrirtækjanna til sveitarfélaganna sjálfra.“

Nánar er fjallað um fjármál sveitarfélaga í ritinu Nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera sem SA gáfu út í júní.