Samtök atvinnulífsins eru tilbúin til að skoða sérstaka hækkun lægstu launa í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem rætt var við Þorstein Víglundsson, framkvæmdastjóra SA og Björn Snæbjörnsson, formann Starfsgreinasambands Íslands.

Í frétt á vefsíðu SA segir að kröfur SGS og þeirra stéttarfélaga sem eru með lausa samninga á almennum og opinberum vinnumarkaði séu mjög háar, hærri en þær hafa nokkru sinni verið. Starfsgreinasambandið krefst að sögn SA 50-70% hækkunar launa yfir þriggja ára tímabil og að þeir sem hæst hafa launin innan SGS hækki hlutfallslega mest. Kröfurnar snúí því ekki sérstaklega að hækkun lægstu launa eins og haldið hafi verið fram opinberlega.

Í fréttinni segir að SA hafi lýst yfir vilja til að endurskoða launakerfi á íslenskum vinnumarkaði, hækka grunnlaun og stytta vinnutíma í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Mikið hafi verið rætt um lága taxta SGS í fjölmiðlum, en að Þorsteinn hafi bent á að taxtakerfi SGS, sem gerir ráð fyrir 200-250 þúsund króna grunnlaunum, skili félagsmönnum SGS 430 þúsund króna meðallaunum. Væru grunnlaunin hækkuð um 50% myndi það skila um 600.000 króna heildarlaunum á mánuði, sem væri langt yfir launum millutekjuhópa á vinnumarkaði.