Umræðan um Vaðlaheiðargöng hefur dregist um of á langinn, að mati Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hann hvetur til þess að ráðist verði í gerð ganganna og að notendur þeirra greiði sérstak gjald sem standi undir kostnaðinum við gerð þeirra.

Vaðlaheiðargöng verða 7,4 kílómetrar að lengd.
Vaðlaheiðargöng verða 7,4 kílómetrar að lengd.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Vilhjálmur segir í pistli á vef Samtaka atvinnulífsins Vaðlaheiðargöng þarfa framkvæmd, um samgöngubót sé að ræða bæði vegna styttingar leiðarinnar frá Akureyri í Fnjóskadal og austur um og eins vegna erfiðrar vetrarfærðar um Víkurskarð.

Vilhjálmur bendir á að Samtök atvinnulífsins telji æskilegt að ráðast í opinberar framkvæmdir þegar ládeyða sé í atvinnulífi og á vinnumarkaði en fresta þeim á þenslutímum. Slíkt sé talið efnahagslega skynsamlegt.

Hann segir umræðuna og andstöðuna við göngin snúast öðru fremur að því að hætta sé á að hluti kostnaðarins falli á ríkissjóð þegar fram líða stundir.

Vilhjálmur skrifar: „En umræðan og andstaðan kemur aldrei að kjarna málsins. Hann er sá að það er verkefni ríkisins að annast samgönguframkvæmdir, Vaðlaheiðargöng sem aðrar framkvæmdir. Um leið og notendurnir þurfa að greiða fyrir notkun ganganna breytast allar arðsemisforsendur ríkisins. Það liggur fyrir að göngin munu á einhverjum tíma renna til ríkisins. Endurgjaldslaust ef notendurnir hafa greitt allan kostnaðinn. En takist ekki að ná öllum kostnaðinum til baka með notendagjöldum verður raunverulegur fjárfestingarkostnaður ríkisins hverfandi í hlutfalli af heildarkostnaði við framkvæmdina.“

Pistil Vilhjálms má lesa í heild sinni hér