Ísland er í efsta sæti í árlegri úttekt Alþjóðlega efnahagsráðsins (WEF) á stöðu kynjajafnræðis í heiminum. Þetta er fjórða árið í röð sem landið vermir toppsætið. Á eftir Íslandi eru hin Norðurlöndin: Finnland, Noregur og Svíþjóð í því fjórða. Tsjad, Pakistan og Jemen verma botnsætin.

Samtök atvinnulífsins (SA) greina frá því á vefsíðu sinni í umfjöllun um könnunina, að þau hafi á undanförnum árum hvatt reglulega til þess að fjölbreytni verði aukin í forystusveit atvinnulífsins. SA hafi fjölgað konum verulega í þeim lífeyrissjóðum sem samtökin skipi stjórnarmenn í og jafnað þar með kynjahlutföllin. Þá hafi þau tekið þátt í gerð jafnlaunastaðals sem styttist í að verði að veruleika. Jafnlaunastaðlinum er ætlað að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að tryggja að konum og körlum séu greidd sömu laun fyrir sambærileg störf.