Á undanförnum tveimur áratugum hefur meðalvinnutími á íslenskum vinnumarkaði styst um 4 klukkustundir vegna minni yfirvinnu, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Sé litið enn lengra aftur kemur í ljós að meðalvinnutími verkafólks og iðnaðarmanna er nú 12-14 klukkustundum styttri en hann var fyrir fjórum áratugum síðan. Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Samtaka atvinnulífsins.

Samtökin segja að aukin framleiðni í atvinnulífinu hafi knúið þess þróun áfram. Frá árinu 1991 hafi verðmætasköpun á hvern landsmann, sem sé einn mælikvarði á framleiðniþróun atvinnulífsins, aukist um 45%. Á sama tíma hafi kaupmáttur launa aukist um 37%.

Í umfjölluninni er jafnframt fjallað um frumvarp sem liggur fyrir Alþingi um að stytta lögboðna vinnuviku úr 40 stundum í 35 stundir. Segir að ekki sé hægt með lagabreytingu að auka frítíma fólks, framleiðni í atvinnulífinu og hækka laun fyrir hverja unna vinnustund. Það verði að gerast á vettvangi atvinnulífsins og í kjarasamningum séu aðstæður fyrir hendi.

Þá segir einnig að það virðist ekki vera forgangsmál hjá Íslendingum að stytta vinnutíma því í skoðanakönnun Capacent Gallup, sem gerð var í aðdraganda síðustu kjarasamninga, hefði einn af hverjum tíu sagst vilja að lögð yrði meiri áhersla á að stytta vinnutíma. Flestir hafi sett í fyrsta sæti að mikilvægast væri að stuðla að lágri verðbólgu með hófsömum launahækkunum.