Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, veltir því upp í leiðara nýs fréttabréfs samtakanna hvort það sé verið að vísa samtökunum frá stöðugleikasáttmálanum með frumvarpi sjávarútvegsráðherra um veigamiklar breytingar á stjórn fiskveiða, þrátt fyrir endurteknar yfirlýsingar um að málin skuli rædd í sáttanefnd.

„Samtök atvinnulífsins hafa leitast við að halda góðum samskiptum við ríkisstjórnina og talið að hún væri að vinna í góðri trú að sameiginlegum hagsmunamálum.  En frumvarp sjávarútvegsráðherra, þvert á yfirlýsingar um sáttavilja, og tillögur um afdrifaríkar breytingar í skattaumhverfi atvinnulífsins sem ekki eru kynntar eða ræddar á meðan viðræður um skattamál atvinnulífsins standa yfir vikum saman vekja óneitanlega upp mikla tortryggni um heilindi ríkisstjórnarinnar í því samstarfi sem markað var með stöðugleikasáttmálanum." Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, í leiðara nýs fréttabréfs SA.