„Þetta er ásættanleg niðurstaða þegar á allt er litið,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, um samning við flugumferðarstjóra sem náðust í morgun.

Í samningnum er kveðið á um 4,75% launahækkun við undirskrift. Þá hækka taxtar um 3% í febrúar. Samningurinn gildir til 31. október 2009.

Samningurinn felur einnig í sér kennsluálag upp á 3% en það þýðir að flugumferðarstjórar fá sérstakt álag fyrir að taka þátt í þjálfun þeirra sem eru að læra að verða flugumferðarstjórar. Tilgangurinn er að fjölga flugumferðarstjórum.

Vilhjálmur segir að í samningaviðræðunum hafi komið fram að þeim þurfi að fjölga til að draga megi úr yfirvinnuálagi.

Spurður hvort samningurinn sé úr takti við aðra samninga sem gerðir hafa verið svo sem við flugmenn og flugfreyjur segir Vilhjálmur að ekki sé einfalt að bera samninga saman. Þær hækkanir sem flugumferðarstjórar hafi samið um fari beint í taxtakerfið. Þeir séu bundnir taxtakerfinu og hafi því ekki beinlínis notið launaskriðs. Líta verði á samningana út frá því.