Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér ályktun þar sem þau fagna því að almenn vörugjöld verði afnumin samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi. Þau hafi verið skaðleg neytendum og fyrirtækjum í alltof langan tíma.

Samtökin segja að vörugjöldin hafi verið lögð á ýmsar nytjavörur og framleiðslu innanlands allt frá árinu 1971 þegar Ísland gekk í EFTA en vörugjaldakerfið sé flókið, órökrétt og ósanngjarnt. Það feli í sér margvíslega mismunun og hækki verðlag. Þá benda samtökin á að ýmsar tilraunir hafi verið gerðar til að bæta kerfið en án árangurs. Vörugjöld af matvælum hafi t.d. verið afnumin 2007 í viðleitni til að lækka matarverð en árið 2009 hafi þau verið sett á að nýju í óbreyttri mynd en upphæðir tvöfaldar enda sé það trú margra að aukin gjöld bæti lífskjör á Íslandi.

Þá nefna samtökin að á síðasta ári hafi innheimtukerfi vörugjalda af matvælum verið umturnað með ærnum tilkostnaði með það að markmiði að skattleggja allan sykur sem ofan í fólk fer. Kerfið sé flókið og kostnaðarsamt í framkvæmd en engin gögn séu til sem bendi til að skattlagningin hafi áhrif á neysluna. Allir viti að sykurneysla sé engum holl né óhófleg neysla annarra matvæla en vilji menn koma böndum á offitu með skattlagningu væri nær að skattleggja ofát.

Að lokum nefna samtökin að vörugjöldin hafi verið sett á árið 1971 til að bæta íslenska ríkinu upp tekjutap vegna niðurfellingar á tollum við inngönguna í EFTA. Það sé orðið tímabært að íslensk heimili fái að njóta ávinningsins rúmum fjórum áratugum síðar en sambærileg skattlagning þekkist ekki annars staðar á Norðurlöndunum.