Hlutabréf í SAAB hækkuðu um rúm 4% á föstudag eftir að félagið greindi frá því að það hefði hagnast um einn milljarð sænskra króna á fjórða ársfjórðungi sem var 35% umfram meðalspá greiningaraðila.

Bréfin hækkuðu ekki síður vegna þess að stjórnendur SAAB eru bjartsýnir um gott gengi á árinu þrátt fyrir óvissu um framlög sænska ríkisins til varnarmála.

Þetta kemur fram í hálffimm fréttum Kaupþings. Þá segir einnig að SAAB stefnir að því að vaxa um fimm prósent í ár með innri vexti og að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) verði um 10% af tekjum. Jafnframt hyggst fyrirtækið draga úr kostnaði um einn milljarða sænskra króna, eða um 4% af tekjum, frá og með árinu 2010.