Verksmiðjur Saab í Svíþjóð hafa ekki framleitt bifreiðar í fjóra daga, eftir að bílapartar bárust ekki frá birgjum. Ástæðan er sú að Saab hefur ekki getað greitt fyrir vörurnar. Victor Muller, stjórnarformaður Saab, segir að félagið sé ekki á barmi gjaldþrots.

Samband sænskra birgja tilkynnti um þetta í dag og greint er frá á vefsíðu BBC. Í fréttinni segir að birgjar hafi áhyggjur af fjárhagsstöðu bílaframleiðandans, þrátt fyrir orð stjórnarformannsins.

Talsmaður Saab segir að unnið sé að lausn í samstarfi við birgja. Reynt sé að koma framleiðslunni aftur af stað. Fyrir helgi birti Spyker, systurfélag Saab, ársreikning sinn fyrir síðasta ár sem sýnir að Saab vantar aukið eigið fé. Saab yfirtók Spyker í fyrra og fjármagnaði kaupin með láni frá Evrópska fjárfestingarbankanum. Hluti lánsins hefur þegar verið notaður til að fjármagna starfsemi Saab, af því er BBC greinir frá.

Fjárfestar og birgjar hafa áhyggjur af þungri skuldabyrði félagsins en Saab þarf að greiða 40 milljónir evra í afborganir á þessu ári.