Ekki er útilokað að sænski bílaframleiðandinn Saab verði settur í þrot. Þetta segir aðstoðarmaður fyrirtækisins sem á að leiða það í gegnum greiðslustöðvun.

Stjórnendur hafa um nokkurra mánaða skeið gengið á milli Pontíusar og Pílatusar í leit að nýju fjármagni auk þess að selja eignir til að borga birgjum og greiða starfsfólki laun. Mikilvæg líflína, brúarlán frá kínverska bílaframleiðandanum Youngman upp á 70 milljónir evra, jafnvirði rúma 11 milljarða íslenskra króna, hefur hins vegar látið bíða eftir sér.

Fyrirtækið hefur verið í greiðslustöðvun um nokkurt skeið.

Gunilla Gustavs, talsmaður Saab, segir í samtali við sænska fjölmiðla stjórnendur fyrirtækisins búast við að tryggja sér brúarlánið. Í samtali við Svenska Dagbladet gat hún hvorki svarað því því hvenær lánið muni skila sér né hversu lengi fyrirtækið geti starfað án fjárins.

Orðrómur hefur verið á kreiki þess efnis að sænsk stjórnvöld komi fyrirtækinu til bjargar og greiði skuldir Saab gagnvart evrópska fjárfestingarbankanum. Á móti eignist sænska ríkið hlut í Saab.

Sænsk yfirvöld neita því að slíkt standi til.