Fyrsta skuldabréfaútgáfa Sádi Arabíu í Bandaríkjadölum skilar þeim 17,5 milljörðum dala sem er met meðal nýmarkaðsríkja.

Mikil eftirpurn varð af skuldabréfaútboðinu og fór það fram úr 16,5 milljarða skuldabréfaútboði Argentínu fyrr á árinu, og varð það því það stærsta í sögunni meðal nýmarkaðsríkja.

Eftirspurnin var 67 milljarðar dala

Fyrir lágu pantanir á skuldabréfum fyrir 67 milljarða dala, sem gerði ríkinu kleyft að gefa út skuldabréf fyrir meira en þá 10-15 milljarða dali sem upphaflega stóð til.

Skuldabréfin eru gefin út til fimm, tíu og þrjátíu ára, og er vænt ávöxtunarkrafa þeirra um 2,63%, 3,44% og 4,64%.

Lægri ávöxtunarkrafa en búist var við

Er um töluvert lægri ávöxtunarkröfu að ræða en búist var upphaflega við, en þá hafði verið búist við að ávöxtunarkrafan fyrir tíu ára skuldabréf yrði 3,6%.

Þetta þýðir að lánskostnaður Sádi Arabíu er 44 punktum hærri heldur en nágrannaríkið Quatar sem hefur betri lánsfjárstöðu, í stað þess að hann sé 50 punktum hærri.

Vilja venja landið af olíu

Skuldabréfaútgáfan kemur í kjölfar lækkandi heimsmarkaðsverð olíu og aukins halla í rekstri ríkissjóðs, en hún er jafnframt hluti af áætlun stjórnvalda um að venja konungsríkið af því að vera jafnháð olíu og það hefur verið.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur skorið niður væntingar sínar um hagvöxt í landinu niður í 1,2% frá því að vera 3,5% á árinu 2015.

Citi, HSBC og JPMorgan eru leiðandi í sölu skuldabréfanna. Bank of China, BNP Paripas, Deutsche Bank, Goldman Sachs, Morgan Stanely, Mitsubishi UFJ og NCB Capital tóku einnig þátt í útboðinu.