Meðalolíuverðið sem þarf að vera til að Sádi Arabía nái að reka ríkið án fjárlagahalla hefur einungis lækkað um helminginn af því sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáði fyrir um fyrir sex mánuðum síðan.

Olíuverðið sem þyrfti að vera til að ríkisreksturinn væri í jafnvægi er nú 79,70 Bandaríkjadaliir, sem er lækkun frá 92,90 dölum árið 2015 samkvæmt skýrslu sjóðsins. Í apríl spáði hann þó að lækkunin myndi nema 30% á árinu, eða niður í 66,70 dali á fatið.

Minni áhrif af umbótum en vænst var

Tölurnar voru birtar í aðdraganda fyrstu skuldabréfaútgáfu ríkisins sem Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag en það sló fyrri stærðarmet.

Virðist því vera sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr kostnaði og skjóta fleiri stoðum undir efnahagslífið hafi minni áhrif en áður var vænst. Meira en 80% af tekjum ríkisins koma frá sölu olíu, að því er fram kemur í skýrslu Alþjóðabankans frá í júlí.

Möguleg skýring á eftirgjöf gagnvart Íran

Þetta gæti verið ein skýringin fyrir því að Sádi Arabía gaf eftir og samþykkti samkomulag OPEC ríkja frá því í síðasta mánuði um að draga úr olíuframleiðslu, jafnvel þótt keppinauturinn Íran þurfi ekki að draga úr sinni framleiðslu.

Í apríl beitti ríkið neitunarvaldi á því að draga úr framleiðslu eftir að Íran neitaði að taka þátt, því væru að komast aftur á markaðinn í kjölfar loka viðskiptabannsins við landið.

Fjölbreyttara atvinnulíf gefur sterkari stöðu

Fyrir Íran er sami jafnvægispunktur fyrir ríkisfjármálin 55,30 dalir, sem er lækkun úr 60,10 dölum árið 2015.

Er það mun lægra en spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir landið frá því apríl, sem sýnir að fjölbreyttara efnahagslíf landsins hefur styrkt stöðu þess gagnvart Sádi Arabíu.

Kúveit eina sem nær jafnvægi miðað við núverandi verð

Á árinu hefur meðalverð á olíufatið verið lægra en 45 dali og í dag er verðið 52,82 dalir. Eina OPEC ríkið í Miðausturlöndum eða Norður Afríku sem hefur getað náð að skila rekstrarafgangi miðað við núverandi olíuverð er Kúveit.

Jafnvægisverð fyrir landið í ár er 47,80 dalir á fatið, en af þessum ríkjum þarf hins vegar Líbýa langhæsta verðið til að ná jafnvægi, eða 216,50 dali á fatið.