Sádi-Arabía, stærsta hagkerfi Mið-Austurlanda, hyggst ekki slíta fasttengingu gjaldmiðils síns við Bandaríkjadal, segir seðlabankastjóri landsins. Veiking dalsins hefur verið einn helsti orsakavaldur aukinnar verðbólgu í Sádi-Arabíu.

„Við höfum ekki uppi nein áform um að slíta fasttengingunni við dalinn," sagði Hamad Al-Sayari seðlabankastjóri í samtali við Dow Jones fréttaveituna á ráðstefnu sem haldin var í Riyadh, höfuðborg Sádi-Arabíu.

Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Katar, Bahrain og Óman hafa verið undir vaxandi þrýstingi um að bregðast við gengishruni dalsins með því að hætta fasttengingu gjaldmiðils síns við hann til að vinna gegn verðbólguþrýstingi. Kúveit sleit fasttengingu sinni við dalinn fyrir ári og tók upp tengingu við myntkörfu sem samanstóð af fjölbreyttari mynt.

Á sama tíma og verðbólga hefur ekki mælst hærri í þrjátíu ár í Sádi-Arabíu eru þarlend peningamálayfirvöld -- vegna fasttengingarinnar við dalinn -- knúin til að fylgja í fótspor bandaríska seðlabankans og lækka hjá sér stýrivexti.

„Peninga- og ríkisfjármálastefnan vinnur hvor gegn annarri, sem setur stjórnvöld í mjög erfiða stöðu," segir Sayari. „Hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu leiðir til aukinna tekna ríkissjóðs. Í kjölfarið vaxa ríkisútgjöld sem aftur veldur auknum verðbólguþrýstingi."

Seðlabanki Sádi-Arabíu lækkaði hjá sér stýrivexti um 25 punkta á laugardaginn var -- þremur dögum eftir að seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði vexti um 25 punkta -- en hækkaði jafnframt bindiskylduna til að stemma stigu við útlánaaukningu bankastofnana þar í landi.

Seðlabankinn hefur ekki gripið til slíkra aðgerða síðan árið 1980.