Kingdom Holding, fjárfestingafélag í meirihlutaeigu sádí-arabíska prinsins Alwaleed bin Talal, fjárfesti fyrir ríflega hálfan milljarð dala í rússneskum olíufyrirtækjum skömmu fyrir og eftir innrás Rússa í Úkraínu þrátt fyrir refsiaðgerðir og hótanir Evrópuríkja um viðskiptaþvinganir.

Af rúmlega 500 milljóna dala fjárfestingunni, eða sem nemur 69 milljörðum króna, keypti Kingdom Holding í olíufyrirtækinu Gazprom fyrir 364 milljónir dala í febrúar. Restin fór í olíufyrirtækin Rosneft og Lukoil í febrúar og mars. Rússlandsher réðst inn í Úkraínu þann 24. febrúar síðastliðinn.

PIF, þjóðarsjóður Sádi-Arabíu, eignaðist 16,8% hlut í Kingdom Holding í maí, nokkrum mánuðum eftir fjárfestingu félagsins í rússnesku olíufyrirtækjunum. Ólíklegt þykir að stórt sádi-arabískt fyrirtæki hefði ráðist í stóra fjárfestingu í Rússlandi án samþykkis stjórnvalda, að því er kemur fram Í umfjöllun Financial Times.

Í kauphallartilkynningu í gær kom fram að Kingdom Holding hafi einnig fjárfest í Uber, Lyft, Alibaba og BlackRock TCP Capital ásamt bresku fyrirtækjunum Phoenix Group og M&G. Kingdom Holding átti fyrir hlut í hótelkeðjunni Four Seasons og samfélagsmiðlinum Twitter.

Al Waleed, ásamt öðrum sádi-arabískum auðkýfingum og meðlimum konungsfjölskyldunnar, var handtekinn árið 2017. Yfirvöld lýstu því að aðgerðirnar væru liður í að taka á spillingu en almennt er talið að þær hafi verið hluti af valdatafli krónprinsins Mohammed bin Salman.

Al Waleed, sem er barnabarn fyrsta konungs Sádi-Arabíu, var látinn laus í byrjun árs 2018 eftir að hafa náð samkomulagi við stjórnvöld en ekki hefur verið gefið upp í hverja það fólst.

Alwaleed bin Talal myndaður með Nicolas Sarkozy, þáverandi Frakklandsforseta, árið 2008
Alwaleed bin Talal myndaður með Nicolas Sarkozy, þáverandi Frakklandsforseta, árið 2008
© epa (epa)