Írönsk stjórnvöld eru ekki ein um að skynja að staða þeirra í Mið-Austurlöndum hafi styrkst til muna í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna í Írak. Sú staðreynd að Bandaríkjamenn eiga fullt í fangi með að koma böndum á skálmöldina í landinu hefur gert það að verkum að önnur ríki hafa reynt að notfæra sér ástandið til þess að auka á áhrif sín á gang mála á svæðinu. Kastljós fjölmiðla hefur beinst að utanríkismálum stjórnvölda í Teheran en minni gaumur hefur verið gefinn að áherslum Sádi-Araba, en þau hafa í auknum mæli reynt að stemma stigum við vaxandi áhrifum Írana á svæðinu auk þess sem að þeir telja kjarnorkuáform klerkastjórnarinnar beina öryggisógn gagnvart sér.

Rétt eins og önnur olíuútflutningsríki hafa Sádar notið góðs af hinu háa heimsmarkaðsverði undanfarin ár. Fyrr á þessu ári beittu stjórnvöld í Sádi-Arabíu áhrifum sínum innan OPEC olíusamtakanna og gáfu til kynna að framleiðsluaukning væri yfirvofandi. Mikilvægi olíuframleiðslu er slíkt að yfirlýsingin leiddi til verðlækkana. Stjórnmálaskýrendur telja að Sádar hafi með þessu verið að senda stjórnvöldum í Teheran ákveðin skilaboð um breytt valdahlutföll en verðlækkunin skaðaði hagkerfi Írans sem er afar bágborið þrátt fyrir mikinn olíuauð.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.