Slitastjórn Kaupþings hefur samþykkt 73 milljóna kröfu Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, í þrotabú bankans. Þetta er aðeins hluti þess sem Sigurður hefur farið fram á að verði viðurkennt. Heildarkrafa hans hljóðaði upp á 216 milljónir króna á grundvelli þess að fá viðurkenndan eins árs uppsagnarfrest eins og tiltekið er í kjarasamningi starfsmanna fjármálafyrirtækja ásamt orlofsgreiðslu í átján mánuði frá í maí 2008 og fram til loka október árið eftir og framlags í lífeyrissjóð.

Fram kom í kvöldfréttum RÚV að lögmaður Sigurðar hafi tekið fram við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að samkvæmt ráðningarsamningnum ætti Sigurður launarétt í fjögur ár og krefðist hann einungis eins árs af þeim.

Þá segir jafnframt að þótt héraðsdómur fallist á kröfur Sigurðar þá þýði það ekki endilega að hann fái launin greidd þar sem það gæti komið til skuldajöfnunar kröfu þrotabúsins á hendur honum.

Skuldar Kaupþing rúman hálfan milljarð

Sigurður var sem kunnugt er í sumar dæmdur til að greiða þrotabúi bankans rétt tæpar 500 milljónir króna auk vaxta vegna persónunlegrar ábyrgðar hans af lánum sem bankinn veitti honum til kaupa á hlutabréfum bankans. Þetta jafngildir um 10% af þeim lánum sem Sigurður fékk hjá bankanum til hlutabréfakaupa. Hlutabréfin urðu verðlaus þegar bankinn fór í þrot og skilanefnd tók þar lyklavöldin fyrir fjórum árum. Þá er þetta ekki eina mál Sigurðar tengt bankanum en Sérstakur saksóknari hefur ákært hann fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í svokölluðu Al Thani-máli.