Listamaðurinn Ashraf Fayadh var dæmdur til dauða nýlega. Dauðadóminn hlaut hann fyrir að hafa sagt guðlastandi orð um spámanninn Múhameð og ríkisstjórn Sádi-Arabíu á kaffihúsi í Abha.

Mat dómaranna var slíkt að guðlast listamannsins væri svokallað ' hadd ', sem er ófyrirgefanlegur glæpur sem krefst dauðarefsingar.

Fayadh var áður ákærður fyrir ljóðabók sína ásamt því að hafa verið sakaður um að hafa átt í ólögmætum samböndum við konur.

Á síðasta ári var listamaðurinn fundin sekur í en í staðinn fyrir dauðadóm hlaut hann 800 svipuhögg og fjögurra ára fangelsi. Málinu var því næst áfrýjað til annarra dómstóla og það var ekki fyrr en nú í nóvember sem hann var dæmdur til dauða.

Stuðningsmenn og vinir Ashraf segja að trúarlögreglan, hafi fylgst með honum allt frá því að hann tók meðlim lögreglunnar upp á myndband þar sem hann sló mann utan undir og ýtti honum upp við vegg. Myndskeiðið fór á vefsíðuna Youtube og fékk þar rúmlega 200 þúsund áhorf.

Bókstafstrú byggð á wahhabisma

Málið sýnir á skýran hátt hve mismunandi dómsniðurstöður geta verið undir Sharía-lögum, en mismunandi dómarar geta túlkað sérstakar lagagreinar á mismunandi hátt.

Dómskerfi Sádi-Arabíu byggir á svokölluðum wahhabisma , sem er ofur-íhaldssöm stefna innan Súnní íslam. Stefnan á rætur sínar að rekja til átjándu aldar fræðimanns að nafni Muhammad ibn Abd al-Wahhab sem jók áherslu á bókstafstrú.

Stefnan er að mati sumra grundvöllur hugmyndafræðinnar sem hryðjuverkasamtökin ISIS byggja á, en einn Twitter-notandi sem lýsti ákvörðun dómaranna sem 'ISIS-legri' hefur nú verið kærður að sama sinni fyrir rógburð.

Ekki er gefið mikið rúm til tjáningarfrelsis í Sádi-Arabíu. Nefna má fleiri dæmi á borð við mál rithöfundarins Raif Badawi, sem var dæmdur til að þola 1.000 svipuhögg og tíu ára fangelsi fyrir guðlast, og mál þriggja lögfræðinga sem voru nánast fangelsaðir í átta ár eftir að hafa gagnrýnt dómsmálastofnun Sádi Arabíu á veraldarvefnum.