*

sunnudagur, 19. september 2021
Erlent 13. febrúar 2019 13:37

Sádi-Arabía ætlar í útrás

Sádi-Arabía hyggst í fyrsta sinn leita út fyrir landamæri konungsveldisins að tækifærum í olíu og gasvinnslu

Ritstjórn
Khalid al Falih, ráðherra orkumála í konungsveldinu Sádi-Arabíu, ætlar í útrás.

Sádi-Arabía hefur í hyggju að sækja fram á alþjóðavísu og leitar nú að tækifærum í bæði leit og vinnslu á olíu utan landamæra konungsveldisins. Financial Times greinir frá þessu og hefur eftir Khalid al Falih, orkumálaráðherra Sádi-Arabíu, að útrás ríkisfélagsins Saudi Aramco sé lykilatriði fyrir framtíð fyrirtækisins.

„Við erum hætt að horfa inná við og einblína eingöngu á að auðlindir konungsveldisins. Í framtíðinni mun heimurinn allur vera leikvöllur Saudi Aramco,“ segir Falih í samtali við Financial Times og bætir við að Aramco stefni að því að taka sér stöðu með félögum á borð við Dutch Shell og ExxonMobil sem vinni olíu og gas um víða veröld.

Ákvörðunin er tekinn þrátt fyrir þá stefnu krónprinsins Mohammed bin Salman að gera þjóðina minna háða olíuauðlindum sínum, sem prinsinn hefur kallað „hættulega fíkn“. Að mati Financial Times er þessi stefnubreyting til marks um að Sádi-Arabía muni að öllu líkindum þurfa að stóla á auðlindir sínar um ókomna framtíð þrátt fyrir tilraunir þess til að skjóta fleiri stoðum undir hagkerfið á sviðum eins og tækniframleiðslu, ferðamennsku og heilbrigðisþjónustu.  

Sádi-Arabía og Rússland hafa undanfarna mánuði verið leiðandi í því að draga úr framleiðslu sinni eftir að olíuverð lækkaði um 40% á haustmánuðum í fyrra. Olíuverð er nú í kringum 60 dollara fyrir fatið en miðað við fjárhagslegar skuldbindingar Sádi-Arabíu þarf verðið að vera nær 80 dollurum.