Sádí-Arabar opnuðu í dag hlutabréfamarkað sinn fyrir erlendum fjárfestum og í fyrsta skiptið geta þeir nú fengið atkvæðisrétt í hlutafélögum. Áður þurftu fjárfestar sem voru af erlendu bergi brotnir að fara ýmsar krókaleiðir til að eignast hlut í Sádí-Arabískum félögum.

Sérfræðingar segja að fyrirtæki þar í landi geti notið góðs af því að fá vana erlenda fjárfesta inn á markaðinn og mun það líklega skila sér á jákvæðan hátt út í efnahag þessa mikla olíuríkis. Hins vegar er ákveðinn galli á gjöf Njarðar og felst hann í því að Sádar hafa sett því gríðarleg skilyrði hverjir geta fjárfest á þeirra nýopnaða markaði, sem kallast Tadawul.

Til að byrja með munu einungis stofnanir með eignasöfn að andvirði fimm milljarða Bandaríkjadala fá að fjárfesta á þessum markaði, með möguleika á undantekningum niður í allt að þrjá milljarða. Þá þurfa félögin að hafa að minnsta kosti fimm ára fjárfestingarsögu til að fá græna ljósið.

Enginn fjárfestir getur átt meira en 5 prósent í félagi á markaðnum og ekkert félag má vera í meirihlutaeigu erlendra aðila. Einungis 10 prósent af hlutafé markaðarins í heild sinni má vera í erlendri eigu.

Þó er ýmislegt sem laðar að erlenda fjárfesta. Efnahagur Sádí Arabíu er mjög sterkur, en undanfarin ár var mikill gróði úr olíugeiranum notaður til að greiða allar skuldir þjóðarbúsins og byggja upp gjaldeyrisvaraforða sem nemur árlegri vergri landsframleiðslu. Þá fer millistéttin stækkandi, laun hækka og mikil áhersla er lögð á útgjöld til heilbrigðis- og menntamála.

Hlutabréfamarkaðurinn Tadawul er opinn frá 11:00 til 15:30 á sunnudögum til fimmtudaga og á honum eru 165 hlutafélög. Þar eru fasteignafélög mest áberandi og þar á eftir olíufélög og bankar.