Steve Easterbrook, fyrrum forstjóri skyndibitakeðjunnar McDonald‘s sem var rekinn fyrir að eiga í kynferðislegu samneyti við samstarfskonur, hefur samþykkt að gefa eftir meira en 105 milljónir dala, eða um 13,7 milljörðum króna, til að ná sáttum í einum stærstu átökum sem varða forstjóralaun í sögu bandarísks atvinnulífs.

McDonald‘s tilkynnti þetta í dag í nokkuð afdráttarlausri yfirlýsingu sem innihélt m.a. afsökunarbeiðni frá hinum breska Easterbrook en fjárhæðin er talsvert umfram 40 milljóna dala starfslokasamninginn sem Easterbrook fékk þegar hann yfirgaf stórfyrirtækið árið 2019.

„Sáttin dregur Steve Easterborg til ábyrgðar fyrir ósæmilega hegðun, þar á meðal hvernig hann misnotaði stöðu sína sem forstjóri,“ segir Enrique Hernandez, stjórnarformaður McDonald‘s í yfirlýsingunni. Þar kemur jafnframt að Easterbrook hafi logið og reynt að standa í vegi fyrir rannsókn á gjörðum hans.

Sjá einnig: McDonalds kærir fyrrum forstjóra

Easterbrook sagði sjálfur að honum hafi „mistekist að standa undir gildum McDonald‘s og ekki framfylgt ákveðnum skyldum sínum sem leiðtogi fyrirtækisins. Ég biðst afsökunar til fyrrum samstarfsfólks, stjórnarinnar og sérleyfishafa fyrirtækisins ásamt birgja vegna þessa.“

McDonald‘s sagði upp Easterbrook í nóvember 2019 fyrir að ganga gegn stefnu fyrirtækisins með því að eiga í sambandi við samstarfskonu, sem hann lýsti sem gagnkvæmu. Í kjölfarið náði hann samkomulagi um starfslokasamning að andvirði 40 milljónum dala.

Í ágúst 2020 tilkynnti McDonald‘s um að fyrirtækið hafi hafið rannsókn vegna málsins að eftir nafnlausa ábendingu um að forstjórinn fyrrverandi hafði átt í sambandi við annan starfsmenn fyrirtækisins. Rannsóknin leiddi í ljós að alls hafði hann átt í kynferðislegu sambandi með þremur starfsmönnum sem voru alvarlegri en hann hafði viðurkennt. Easterbrook hafði lofað að veita einni konunni hlutabréf að andvirði hundruð þúsunda dala, að því er kemur fram í frétt Financial Times .