Skiptastjóri þrotabús Ingvars J. Karlssonar, fjárfestis og stjórnarformanns heildverslunarinnar Karls K. Karlssonar hf., hefur höfðað riftunarmál á hendur eiginkonu Ingvars til þess að fá rift ráðstöfun hans á eignum til sambýliskonu sinnar með kaupmála sem gerður var árið 2009. Morgunblaðið greinir frá þessu.

Skiptastjórinn telur að Ingvar hafi ráðstafað til Margrétar Stefánsdóttur, sambýliskonu sinnar og núverandi eiginkonu, með kaupmála og málamyndagerningi, verulegum og í raun mestum hluta eigna sinna án þess að nokkur greiðsla hafi komið fyrir.

Meðal eigna Margrétar sem krafist er riftunar á er 78% eignarhlutur í Karli K. Karlssyni hf. og hluti eða allt hlutafé í 23 öðrum hlutafélögum eða eignarhaldsfélögum. Meðal þeirra er 17% eignarhluti í Lífsvali, en félagið keypti fjölda bújarða víðs vegar um landið fyrir hrun.

Ef afhendingu eignanna verður ekki komið fyrir krefst skiptastjórinn að eiginkonunni verði gert að greiða allt að 900 milljónir króna til þrotabúsins.