Veitufyrirtækið Pacific Gas & Electric í Kaliforníufylki hefur sótt um greiðslustöðvun undir 11. kafla gjaldþrotalaganna Bandaríkjanna, vegna skaðabóta í tengslum við skæða elda sem geisað hafa í fylkinu.

Búnaður á vegum fyrirtækisins hefur verið valdur að yfir 1.500 eldum síðustu ár, og skaðabótakröfurnar hljóða upp á um 30 milljarða dollara, eða um 3.600 milljarða króna.

Financial Times segir í frétt sinni um málið að gjaldþrot veitufyrirtækja í Bandaríkjunum séu afar sjaldgæf, og í ársbyrjun var félagið metið í fjárfestingaflokki af helstu matsfyrirtækjum.

Talsmenn fyrirtækisins segja að greiðslustöðvunin muni veita fyrirtækinu svigrúm til að gera upp þær kröfur sem komið hafa upp, og eiga eftir að koma upp, í tengslum við skógarelda í norðurhluta fylkisins.

„Við teljum ferlið til þess fallið að tryggja nægt lausafé til að þjónusta viðskiptavini okkar og standa undir rekstri okkar og skuldbindingum,“ er haft eftir John Simon, tímabundnum framkvæmdastjóra félagsins, eftir að fyrirrennari hans, Geisha Williams, sagði af sér í síðustu viku.