*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 13. ágúst 2020 18:26

Sækja 260 milljónir og semja við Amazon

Nordic Enterprises hefur lokið 260 milljóna skuldabréfaútboði. Félagið er í íslenskri eigu og framleiðir heyrnartól fyrir börn í Hong Kong.

Ritstjórn
Pétur Hannes Ólafsson framkvæmdastjóri og Bjarki Garðarsson fjármálastjóri Nordic Enterprises.
Haraldur Guðjónsson

Nordic Enterprises Ltd. hefur lokið við skuldabréfaútboð með valrétti upp á 1,9 milljónir dollara, jafnvirði um 260 milljóna króna. Útboðinu er ætlað bæði til að endurfjármagna eldri útgáfu félagsins sem og til þess að fjármagna áframhaldandi tekjuvöxt. 

„Við erum mjög ánægðir með niðurstöðuna úr útboðinu. Rekstur Nordic Enterprises gengur vel og mikill vöxtur í kortunum, en vegna óvissu á fjármagnsmörkuðum þá var ákveðið að bjóða út skuldabréf með valrétti í stað þess að fara í stórt hlutafjárútboð á þessum tímapunkti. Félagið er í góðri stöðu og með spennandi möguleika og sá öflugi og breiði hópur fjárfesta sem tók þátt, sýnir mikla trú á félagið og stjórnendur þess“ segir Karl Þorsteins hjá Centra Fyrirtækjaráðgjöf, sem hafði umsjón með útboðinu.

Sjá einnig: Selja heyrnatól fyrir 600 milljónir

Nordic Enterprises er félag staðsett í Hong Kong sem er rúmlega 75% í eigu íslendinga. Félagið var stofnað af Pétri Ólafssyni, sem er framkvæmdastjóri félagsins, og Bjarka Garðarssyni, sem er fjármálastjóri. Félagið hefur frá upphafi sérhæft sig í framleiðslu og sölu á heyrnatólum fyrir krakka undir vörumerkjunum Onanoff og BuddyPhones. Félagið hefur selt um 2 milljónir heyrnatóla, vörur félagsins eru í dreifingu í um 90 löndum og stærstu viðskiptavinirnir eru Target og Amazon.

Félagið velti 5,3 milljónum dollara á síðasta ári. Þrátt fyrir að Covid áhrifin hafi haft neikvæð áhrif á sölu í verslunum þá er áætlaður 20-30% tekjuvöxtur á þessu ári sökum ukinnar sölu á netinu og nýrra sölusamninga. Félagið stefnir á frekari vöxt á næstu árum.

Semja við Amazon

Nordic Enterprises og Amazon gerðu nýverið samning um sérstaka línu af BuddyPhones sem eru gerð fyrir Amazon og Amazon mælir með fyrir Kindle og Echo.

„Það er gríðarlegur heiður og viðurkenning að Amazon hafi valið Nordic Enterprises til að vinna með og mæla með vörum félagsins fyrir Kindle og Echo enda velur Amazon aðeins bestu aðilana á hverju sviði til að vinna með,“ segir Pétur Ólafsson. Samningurinn sjálfur getur skilað 1-2 milljónum dollara í auknar árlegar tekjur fyrir Nordic Enterprises.

„Ennþá meiri máli skiptir að áhugi annarra stórra söluaðila í USA styrkist og við væntum fleiri samninga í kjölfarið“, bætir Pétur við.

Notkun á heyrnartólum meðal barna hefur aukist gríðarlega síðasta áratuginn, fyrst og fremst vegna þróunar á snjalltækjum og neyslu á afþreyingu, leikjum, tónlist o.s.fr.v.. Þessi þróun hefur aukið mjög á tíðni heyrnarskemmda hjá ungu fólki en leiðarljós félagsins í þróun á BuddyPhones hefur verið öryggi barnanna sem nota heyrnartólin. Þetta hefur skilað þeim árangri að BuddyPhones er talið meðal fremstu vörumerkja á þessu sviði. Það er líka grundvallarbreyting að verða á sviði menntunar og kennslu á netinu sem mun varanlega auka eftirspurn eftir viðurkenndum heyrnatólum.

„Ef við horfum eingöngu á “kids & education audio market”, þá er áætlað að sá markaður vaxi þrefalt á næstu fimm árum. Mikil þróun mun einnig eiga sér stað á öðrum sviðum í takt við tækniþróun sem skapar nýja möguleika á mörkum hugbúnaðar og tækja og við einsetjum okkur að standa í fremstu röð á þeim sviðum sem við teljum áhugaverðust“.