Íslenska sprotafyrirtækið PayAnalytics hefur lokið fjármögnunarlotu þar sem félagið sótti 450 milljóna króna fjárfestingu frá Eyri Vexti og Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Nýta á fjármagnið til að tvöfalda þróunarteymi félagsins og standa undir markaðssókn erlendis.

Lausn fyrirtækisins, sem stofnað var fyrir þremur árum, er þegar notuð í 43 löndum og 6 heimsálfum af fyrirtækjum sem eru með frá þrjátíu og upp í yfir hundrað þúsund starfsmenn. Þá er lausnin einnig nýtt á um 25% af íslenskum vinnumarkaði.

„Við getum ekki hugsað okkur betri fjárfesta en Eyri og Nýsköpunarsjóðinn,“ segir Margrét Vilborg Bjarnadóttir, stofnandi og stjórnarformaður PayAnalytics í viðtali við Viðskiptablaðið.

Sjá einnig: PayAnalytics greinir laun 25% vinnuaflsins

„Markmiðið er að margfalda söluna á næstu tveimur árum,“ segir Margrét. Vitundarvakning í jafnréttismálum víða um heim skapi umtalsverð tækifæri fyrir fyrirtækið á alþjóðavettvangi. Til stendur að ráða fleira starfsfólk í hugbúnaðarþróun, hönnun, sölu og markaðsstarf á næstunni.

PayAnalytics þróar hugbúnað sem gerir fyrirtækjum kleift að fylgjast með launabili innan fyrirtækisins eftir kyni og öðrum lýðfræðilegum þáttum á borð við þjóðerni í rauntíma. Markmiðið er að auðvelda fyrirtækjum að að eyða óútskýrðum launamun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .