Bátasmiðjan Rafnar er komin í samstarf við bandaríska fyrirtækið Fairlead um framleiðslu og sölu á Rafnar bátum í Bandaríkjunum. Samningurinn felur í sér að Fairlead hefur sérleyfi til að framleiða Rafnar-bátana í Bandaríkjunum til að minnsta kosti 5 ára.

Ólafur William Hand, sölu- og markaðsstjóri Rafnar, segir að síðustu misseri hafi fyrirtækið verið að sækja á markaði í Evrópu, þá sérstaklega í Miðjarðarhafinu, en að undanfarið hafi þau markvisst unnið að sókn á Bandaríkjamarkað.

„Við höfum verið að horfa til nýrra markaða, þar á meðal Bandaríkjanna sem eru auðvitað risastór markaður. Bandaríkjamenn eru með gríðarlega mikinn fjölda skipa við landhelgisgæslu og löggæslu- og björgunarstörf, sem dæmi, og þetta er markaður sem okkur hefur langað mikið að komast inn á," segir Ólafur.

Hann segir að Rafnar hafi verið í viðræðum við Fairlead í um tvö ár.

„Þeir hjá Fairlead sáu Rafnar bát á sýningu erlendis, prófuðu hann og hrifust af honum og út frá því hófust samskipti fyrirtækjanna. Fairlead er stórt fyrirtæki í Virginíu, í Bandaríkjunum, sem hefur verið að smíða búnað og íhluti um borð í fjölbreyttan skipaflota, meðal annars skip í strand- og landhelgisgæslu og flugmóðurskip svo dæmi séu tekin. Þeir búa yfir mikilli reynslu og þekkingu í að vinna með ál og stál, en við komum inn í samstarfið með ÖK Hull hönnunina og sérþekkingu okkar á trefjaplasti."

Vill selja yfir 100 báta á 5 árum

Spurður um mögulegt umfang samstarfsins segir Ólafur erfitt að spá fyrir um þróunina þegar sótt er inn á hinn nýja markað, en að sjálfsögðu séu ákveðnar væntingar til staðar.

„Ef við horfum á samstarfsaðila okkar hingað til, þá hefur salan kannski verið um 15 bátar á ári til að byrja með. Ég yrði ósáttur við það ef við myndum ekki selja eitthvað yfir 100 báta á næstu fimm árum. Það getur orðið meira eða minna, en 20 bátar á ári er langt frá því að vera óyfirstíganlegt á þessum markaði og væntingarnar eru því raunhæfar. Hver bátur selst einhvers á bilinu 350 til 400 þúsund evrum, eftir því hvernig hann er tækjum búinn. Það sem er skemmtilegt við sérleyfissamningana er að við erum að fá leyfistekjur til baka á móti hönnunarkostnaði með því að framleiða báta þar sem annar aðili ber efniskostnað, launakostnað, markaðskostnað og þess háttar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .