Fyrirtækið BaseParking, sem hóf störf í júlímánuði, býður upp á bílageymsluþjónustu sem felur í sér að tekið er á móti bílnum í Leifsstöð og farþegar sóttir á bílnum á ný þegar heim er komið. Er fyrirtækið nú með um 300 bíla í afgirtri og vaktaðri bílageymslu sinni á Ásbrú, gamla varnarsvæðinu, en auk geymslunnar er boðið upp á þrif og bón að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Til að byrja með gerðum við ráð fyrir því að vera með um 100 bíla í geymslu en skömmu eftir að starfsemin hófst bauðst okkur að leigja eitt flottasta svæðið á Ásbrú í svona rekstur,“ segir Njáll Skarphéðinsson, sem stofnaði fyrirtækið ásamt Ómari Þresti Hjaltasyni, sem rekið hefur fyrirtækið Keyrðu mig heim frá árinu 2012 en það sækir bíla fyrir fólk sem fer út á lífið.

„Síðan þá hefur þetta í raun farið fram úr okkar björtustu væntingum og við erum komnir með um 300 bíla í geymslu í dag.“ Ríkisfyrirtækið ISAVIA, sem rekur flugvöllinn hefur fram að þessu eitt staðið í rekstri bílastæðaþjónustu fyrir farþega, en um tíma bauð einnig Bílahótelið upp á almenna bílageymslu.

„Undanfarnarvikur höfum við Ómar unnið sjálfir meira og minna allan sólarhringinn við að taka á móti bílum, skila þeim og sjá um öll samskipti við viðskiptavini. Þetta er ákveðið lúxuvandamál en við erum búnir að ráða fjóra starfsmenn og þurfum að ráða fleiri á næstu vikum,“ segir Njáll.

„Isavia er náttúrlega með mikið stærri bílastæði og það væri erfitt að fara í beina samkeppni við þá án þess að auka þjónustuna.“
ISAVIA er í dag með rúmlega tvö þúsund langbílastæði á vellinum en á næstu mánuðum verðum þeim fjölgað um þrjú þúsund til viðbótar.