„Það hefur verið breitt bil milli samningsaðila og nú þegar harkan eykst þá eykst bölsýni markaðsaðila,“ segir Hrafn Steinarsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, í samtali við Fréttablaðið . Þar er greint frá því að verðbréfa- og lífeyrissjóðir sæki nú í auknum mæli í verðtryggð skuldabréf á kostnað óverðtryggðra vegna stöðunnar sem uppi er á vinnumarkaði. Þetta er í samræmi við það sem Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku.

Hrafn segir fjárfesta hafa væntingar um að verðbólga aukist frekar á næstunni enda hafi fulltrúar launþega farið fram á tuga prósenta launahækkanir. Framboðið á verðtryggðum skuldabréfum sé hins vegar lítið og útlit fyrir að umframeftirspurn verði eftir verðtryggðum skuldabréfum á árinu.

Hann segir að til lengri tíma litið gæti meiri ásókn í verðtryggð skuldabréf umfram óverðtryggð valdið því að vextir á verðtryggðum lánum lækki en vextir á óverðtryggðum lánum hækki. Það gæti hins vegar breyst ef launahækkanir í kjarasamningum verði óverulegar og verðbólga haldist áfram lág. Hins vegar séu engar vísbendingar um að það muni gerast.