Leifur Kolbeinsson, matreiðslumaður og eigandi, stendur nú fyrir opnun Marshall Restaurant + Bar, sem verður á fyrstu hæð Marshall-hússins niðri við Granda. Staðurinn var opnaðu í gær. Að sögn Leifs verður mest áhersla lögð á Miðjarðarhafsmatreiðslu á veitingastaðnum. „Fiskur er í fyrirrúmi en þó eru grænmetis- og kjötréttir einnig í boði,“ segir Leifur.

Í húsinu er einnig menningar og myndlistarmiðstöð. Þar hafa Ólafur Elíasson myndlistarmaður, Nýlistasafnið og listamannarekna galleríið Kling og Bang flutt inn í húsið og nú hefur veitingastaðurinn verið opnaður. Ólafur er með vinnustofu á efstu hæð hússins, svo eru Nýlistasafnið og Kling og Bang með hvort með sína hæðina til umráða.

Spurður að því hvernig að- koma hans að verkefninu sé, segir Leifur að honum hafi verið boðið að vinna í verkefninu með HB Granda og að hans sögn heilluðu bæði staðsetningin og húsið sjálft. „Einnig er frábært að vera hér innan um nágrannana Kling og Bang, Nýlistasafn Reykjavíkur og vinnustofu Ólafs Elíassonar.“

Úr síld í list

Marshall-húsið var upprunalega byggt sem síldarverksmiðja og er í eigu HB Granda. Reykjavíkurborg ákvað í fyrra að leigja húsið til 15 ára til að hýsa framsæknar listir. Bygging verksmiðjunnar hófst árið 1948, þegar Reykjavíkurbær og hlutafélagið Kveldúlfur stofnuðu með sér sameignarfélagið Faxa sf. um byggingu síldarverksmiðjunnar. Byggingin var meðal annars fjármögnuð með Marshall aðstoð Bandaríkjanna eftir stríð og er nafnið þaðan komið. Verksmiðjan var í notkun í um hálfa öld, en hafði staðið autt síðastliðinn ár, þar til húsið var glætt nýju lífi.

Leifur segir að það sé mjög áhugavert að vera í húsinu í ljósi sögu þess. „Tengingin við sjóinn, síldina og afurðir sem voru hér unnar veita okkur innblástur,“ segir hann. Hann bætir við að staðurinn hafi tekið á sig rétta mynd og segir að allir séu að koma sér vel fyrir.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .