Íslensk félög hafa fengið tugi milljóna króna til baka frá erlendum skattayfirvöldum vegna óheimilla afdráttarskatta á arðgreiðslur erlendra félaga í þeirra eigu. Endurskoðunarfyrirtækið KPMG hefur verið að aðstoða íslensk fyrirtæki, þar á meðal lífeyrissjóði, við að sækja þetta fé en í grunninn skapast endurgreiðsluréttur ef fyrirtækjum er mismunað á grundvelli þjóð- ernis þegar kemur að slíkum afdráttarsköttum. Algengt er að þeir séu innheimtir af erlendum félögum en ekki félögum með heimilisfesti í viðkomandi landi, en það er brot á EES-samningnum.

Alexander G. Eðvardsson, annar yfirmanna skatta- og lögfræðisviðs KPMG, segir að fleiri íslensk fyrirtæki eigi rétt á slíkum greiðslum en gert hafi verið ráð fyrir. „Í mörgum tilvikum eru þetta lífeyrissjóðir sem eiga, eða áttu, hlutabréf í erlendum hlutafélögum. Þegar þessi hlutafélög greiddu út arð var hluta af arðinum haldið eftir af þarlendum skattayfirvöldum í formi afdráttarskatts. Þennan skatt eiga félögin og lífeyrissjóðirnir rétt á að fá endurgreiddan.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.