Málarekstur slitastjórnar gamla Landsbankans gegn fyrrverandi bankastjórum, bankaráði bankans og forstöðumanni fjárstýringar hefst eftir hálfan mánuð. Málið var þingfest 8. mars í fyrra og fyrirtaka á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl næstkomandi. Slitastjórnin vill að þau greiði 17,2 milljarða króna vegna starfa þeirra í aðdraganda þess að bankinn fór í þrot. Hinir stefndu hafa skilað greinargerðum í málinu, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Heildarupphæð skaðabóta í málinu öllu nemur tæpum 46 milljörðum króna.

Málið snýr að skaðabótum vegna „vegna gáleysis sem að leiddi til þess að greiddir voru út verulegar fjárhæðir út úr Landsbanka íslands þann 6. október 2008 þegar fyrir lá að bankinn var ógjaldfær. Þann dag, sem var síðasti starfsdagur bankans áður en Fjármálaeftirlitið tók hann yfir og skipaði honum skilanefnd, runnu umtalsverðir fjármunir til verðbréfasjóða Landsvaka, Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka og MP fjárfestingarbanka,“ eins og segir í stefnu málsins. MP fjárfestingarbanki heitir nú EA fjárfestingarfélag.

Gjaldþrota Björgólfi ekki stefnt

Þeim Sigurjón Þ. Árnason og Halldór Kristjánsson er báðum stefnt í málinu ásamt þeim Kjartani Gunnarssyni, Andra Sveinssyni, Þorgeiri Baldurssyni og Svöfu Grönfeldt sem sátu í bankaráði Landsbankans á sínum tíma. Slitastjórnin krefur þau um 14 milljarða króna, auk 10,5 milljóna dala og um 10,8 milljóna evra auk vexti. Það eru alls um 17,2 milljarðar króna. Þá er Jón Þorsteinn Oddleifsson, fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar bankans fyrir hrun, sömuleiðis stefnt í málinu og hann krafinn um rúmlega 11 milljarða króna auk vaxta. Í stefnu á hendur þeim eru taldir upp 25 vátryggjendur sem skulu verða dæmdir til þess að greiða með hinum stefndu. Upphæðir á hvern og einn vátryggjanda eru listaðar í kærunni. Heildarfjárhæð á hendur vátryggjendum er um 17,6 milljarðar króna á núverandi gengi en þær eru gefnar upp í pundum í kærunni.

Björgólfi Guðmundssyni, sem sat í bankaráði bankans, er ekki stefnt en hann er . Hann hefur verið úrskurðaður gjaldþrota.