Eigið fé Straumborgar var neikvætt um rétt tæpa 22 milljarða króna í árslok 2012. Tap Straumborgar nam 5,6 milljörðum króna á síðasta ári og 10,4 milljörðum árið 2011 samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2012. Félagið var fjölskyldufyrirtæki Jóns Helga Guðmundssonar, oft kennds við Byko, og hélt meðal annars utan um eignarhlut í Kaupþingi, hluti í lettneska bankanum Norvik og fjárfestingar í olíu- og orkuiðnaði.

Félagið fékk heimild til að leita nauðasamninga í febrúar á þessu ári en þrír kröfuhafar fóru fram á að heimildinni skyldi hafnað. Fyrir rúmlega tveimur vikum úrskurðaði Hæstiréttur svo að slíkir annmarkar væru á frumvarpi að nauðasamningi að héraðsdómi hefði borið að synja Straumborg um heimild til nauðasamningsumleitana.

Jón Helgi vildi ekki tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið hafði samband en benti á Hjalta Baldursson, framkvæmdastjóra félagsins. Hjalti staðfesti að Straumborg hefði í kjölfarið á ákvörðun Hæstaréttar sótt um nauðasamninga á ný. Hann vildi ekki tjá sig frekar um málefni félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .