Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, segist seint þreytast á að ræða lífeyrisréttindin sjálf og segir að ekki allir átti sig á hversu geysilega verðmæt þau séu. „Við getum hugsað ævina sem þrjú skeið. Á uppvaxtarárunum sjá foreldrar og aðrir aðstandendur um framfærslu. Síðan tekur starfsævin við þar sem við lifum af launatekjum. Á einhverjum tíma hættum við að vinna. Þá lifum við fyrst og fremst af sparnaði sem við leggjum fyrir á starfsævinni," segir hann í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Í dag greiðum við 12% iðgjald í lífeyrissjóði. Yfirleitt er það þannig að þegar upp er staðið, eftir 30 til 40 ára starfsævi, þá eru verðmæti þessara réttinda meiri en verðmæti annarra eigna einstaklinga, til dæmis hússins, bílsins og fleira. Við höfum hvatt sjóðfélaga til að líta eftir og fylgjast vel með þessum réttindum, mæta á sjóðfélagafundi, lesa yfirlitin og hafa samband við sjóðina ef spurningar vakna.

Lífeyrissjóðirnir greiða líka áfallalífeyri, sem samanstendur af örorku-, maka- og barnalífeyri. Þetta eru geysilega verðmæt réttindi. Við höfum hvatt fólk til að kynna sér hvaða áfallalífeyrir er greiddur, til dæmis ef fólk missir starfsorku. Starfsorkumissir er mjög algengur og því verður fólk að gefa þessum málum gaum. Sem dæmi má nefna að af þeim sem eru vinnufærir 35 ára verða 29% kvenna óvinnufærar fyrir 65 ára aldur og 23% karla. Örorkutíðnin hækkar með aldrinum.

Fólk þarf að vita hvort réttindin dugi til að halda uppi þeim lífsgæðum sem fólk þarf og til að greiða af lánum. Sama gildir með ellilífeyrisgreiðslur. Duga þær til þess að halda uppi sömu lífsgæðum?"

Gunnar segir það því miður vera þannig að of fáir leiti upplýsinga um lífeyrisréttindi sín fyrr en stutt er í að þeir þurfi á réttindunum að halda. „Hjá Almenna höfum við boðið upp á stöðuviðtöl þar sem fólk hittir ráðgjafa. Við höfum hvatt fólk á öllum aldri til að koma. Flestir sem mæta eru á aldrinum 59 til 60 ára. Þá er mögulega lítið hægt að gera til að breyta ellilífeyrinum," segir hann.

Ítarlegt viðtal við Gunnar er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentuðu útgáfu blaðsins og er því birtur í heild sinni á vb.is. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.