20. mars síðastliðinn lögðu þau Össur Skarphéðinsson, Vilhjálmur Bjarnason, Óttarr Proppé, Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Júlíusdóttir, Helgi Hjörvar, Kristján L. Möller og Valgerður Bjarnadóttir fram þingsályktunartillögu um fríverslunarsamning við Japan. Yrði hún samþykkt á Alþingi væri ríkisstjórninni falið að hefja undirbúning fríverslunarsamnings við Japan á grundvelli þess að japanska ríkisstjórnin hyggst auka hlut fríverslunar í millríkjaviðskiptum.

Árið 2014 nam heildarverðmæti útfluttra vara frá Íslandi til Japan tæpum ellefu milljörðum króna. Það jafngildir 1,8% af heildarverðmæti alls vöruútflutnings frá Íslandi og um helming af öllum útflutningi Íslands til Asíu. T.d. nam útflutningur Íslands til Kína sama ár aðeins 4,8 milljörðum íslenskra króna.

Nokkuð hefur dregið úr útflutningi til Japan á síðustu árum. Mestur var hann árið 2008 þegar hann nam samtals rúmum 20 milljörðum króna á fob verðmæti. Sömu sögu er að segja um vöruinnflutning frá Japan til Íslands. Mestur var hann rúmir 19 milljarðar árið 2007 en árið 2014 nam hann rúmum átta milljörðum króna og hefur lítið breyst frá árinu 2011.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .