"Við erum að selja upplifun og hugmyndin er að fólk segi vá þegar það kemur inn og það tókst,“ segir Alfreð Chiarolanzio, framkvæmdastjóri Nammibarsins sem var nýlega opnaður á Laugavegi 23. Alfreð segist vilja krydda lífið á Laugaveginum og salan hafi gengið frábærlega vel frá opnun. „Það var allavega vöntun á búð eins og Nammibarnum,“ segir hann.

Á Nammibarnum má finna 430 nammibox sem innihalda nammi frá hinum ýmsu birgjum en lyktin af sælgætinu berst út á Laugaveg til vegfarenda. Alfreð segist vera með sælgæti frá öllum birgjum, bæði innlendum og erlendum og vera með stærsta nammibar á Íslandi. Á Nammibarnum er einnig hnetubar. Upplifunin snýr ekki eingöngu að sælgæti því á Nammibarnum er einnig hægt að búa til sinn eigin bangsa sem er nokkurs konar eftirlíking af hinum þekktu „build a bear“ böngsum. Einnig er í bígerð að selja skyrdrykki, samlokur og brauð á Nammibarnum. Alfreð segir mikilvægt að leggja áherslu á hreinlæti en viðskiptavinir fá allir nammipoka með hreinni skeið til að velja sjálfir sælgæti.

Nammibarinn
Nammibarinn
Nammibarinn við Laugaveg