Sæmundarskóli í Grafarholti hefur gert samning um að taka í notkun 60 Galaxy Note spjaldtölvur frá Samsung til að þróa og efla skólastarf á öllum skólastigum. Ætlunin er að nýta spjaldtölvur eftir því sem við á í sem flestum fögum á öllum skólastigum. Til að byrja með mun áherslan verða lögð á nám á unglingastigi þar sem ætlunin er að hafa spjaldtölvur til láns fyrir nemendur á skólatíma.

Stofnuð hefur verið verkefnastjórn í skólanum sem mun halda utan um verkefnið, afla upplýsinga um notkun spjaldtölva og miðla þeim í skólasamfélagi Sæmundarskóla. Í tilkynningu frá skólanum segir að eftir forathugun kennara og skólastjórnenda á var ákveðið að velja Android spjaldtölvur frá Samsung og ganga til samstarfs við TVR, sem dreifingar- og þjónustuaðila Samsung mobile á Íslandi, og Samsungsetrið, sem söluaðila.

Samstarfið mun m.a. fela í sér að auka meðvitund og þekkingu skólafólks á Íslandi á kostum og möguleikum Android stýrikerfisins í tengslum við skólastarf. Aðilar munu í sameiningu safna og miðla þekkingu og reynslu af notkun spjaldtölva í skólastarfi bæði til starfsfólks Sæmundarskóla sem og til kennara, skólastjórnenda og almennings á Íslandi.

Eygló Friðriksdóttir, skólastjóri Sæmundarskóla segist binda miklar vonir við verkefnið og að mikil eftirvænting sé meðal starfsfólks. „Við munum ekki að láta nægja að lesa rafbækur og [horfa á Youtube]. Þessi tækni býður upp á svo miklu meira en það. Við ætlum okkur að leyfa sköpunargleði og frumkvæði nemenda að njóta sín. Það eru eiginleikar sem eru afar mikilsverðir fyrir nemendur sem við erum að undirbúa fyrir lífið.“