*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 15. júlí 2020 17:04

Sæmundur hættir sem forstjóri Borgunar

Stjórn Borgunar tilkynnti í dag að Sæmundur Sæmundsson hafi ákveðið að láta af störfum sem forstjóri fyrirtækisins.

Ritstjórn
Stjórn Borgunar tilkynnti í dag að Sæmundur Sæmundsson hafi ákveðið að láta af störfum sem forstjóri fyrirtækisins.
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Borgunar tilkynnti í dag að Sæmundur Sæmundsson hafi ákveðið að láta af störfum sem forstjóri fyrirtækisins. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu. Stjórnin tilkynnti einnig að Eduardo Pontes og Marcos Nunes taki við en þeir munu sameiginlega gegna hlutverki forstjóra Borgunar. Breytingarnar verða í kjölfar þess að Salt Pay hefur nú verið samþykkt af fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem nýr rekstraraðili Borgunar. Líkt og áður hefur verið tilkynnt samþykkti Salt Pay að kaupa Borgun fyrr á þessu ári í kjölfar opins söluferlis.

Sæmundur segir þetta vera góða tímasetningu fyrir sig að stíga til hliðar hjá Borgun. „Ég er ákaflega spenntur fyrir hönd starfsfólks Borgunar fyrir þessum næsta kafla þar sem ég veit að Salt Pay hyggst sækja fram af krafti á alþjóðavísu. Ég er stoltur af að hafa leitt fyrirtækið í gegnum mikið breytingatímabil þar sem við náðum því markmiði að selja fyrirtækið. Ég er sérstaklega ánægður að Borgun fái eigendur sem ætli að byggja á þeim öfluga grunni sem teymið okkar hefur byggt upp síðustu ár“. 

„Stjórn Borgunar vill þakka Sæmundi fyrir störf hans og forystu á þessu umbreytingartímum og óskar honum velfarnaðar í nýjum verkefnum,“ segir Elín Jónsdóttir, stjórnarformaður Borgunar. „Hann helgaði sig algerlega því verkefni að tryggja að vegferð þessa 40 ára fyrirtækis geti haldið áfram. Við erum Sæmundi þakklát fyrir að leiða Borgun í gegnum þessa mikilvægu tíma.“

Nýir forstjórar Borgunar verða, eins og kom fram hér að ofan, þeir Edu Pontes og Marcos Nunes. Edu starfaði áður sem forstjóri brasilíska fjártæknifyrirtækisins Stone Co og Marcos starfaði áður sem framkvæmdastjóri alþjóðlegrar færsluhirðingar og ytri vaxtar hjá sænska greiðslumiðlunarfyrirtækinu Bambora. 

Marcos Nunes segir að framtíðarsýn Salt Pay fyrir Borgun sé að ná fram umtalsverðri markaðshlutdeild á meðal lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Evrópu. „Við ætlum að byggja upp öflugt félag á Íslandi sem geti orðið stökkpallur fyrir okkur til að þróa verðmætar lausnir fyrir söluaðila um alla Evrópu. Ekki aðeins í gegnum greiðslumiðlun heldur einnig með því að hjálpa söluaðilunum að vaxa og ná fram aukinni skilvirkni í rekstri sínum.“

Stikkorð: Borgun