Tvær nýjar tegundir af Frón kremkexi koma á markað þessa dagana, annars vegar með lakkrískremi og hins vegar með karamellukremi. Þetta heyrir til töluverðra tíðinda enda hefur verið litið um nýjungar í Frón kremkexi undanfarna áratugi en hið sígilda Frón kremkex hefur þrátt fyrir það haldið sterkri stöðu á kexmarkaði.

„Við höfum verið að skoða þennan markað undanfarnar vikur og mánuði og ljóst er að þjóðinni þykir vænt um Frón. Það þekkja allar kynslóðir kexið frá Frón en við sáum fljótt að yngri kynslóðin vildi nýjungar, þrátt fyrir vinsældir Sæmundar í sparifötunum eins og Kremkexið okkar er stundum kallað, og því var lögð mikil vinna í að þróa og smakka hinar ýmsu tegundir og urðu þessar tvær tegundir fyrir valinu,“ segir Jón Viðar Stefánsson, markaðsstjóri Ísam.

Að sögn Jóns framleiðir Frón um 700 tonn af kexi árlega. „Samkeppnin við innflutt kex er auðvitað mikil og oft erfitt að keppa við innflutt kex en við ætlum okkur að halda áfram og bjóða Íslendingum áfram upp á gott, íslenskt kex eins og Frón hefur gert frá árinu 1926, eða í 91 ár,“ segir Jón Viðar.

Frón Kremkex með karamellubragði
Frón Kremkex með karamellubragði
© Aðsend mynd (AÐSEND)