Sæmundur Sæmundsson, hefur verið ráðinn nýr forstjóri Borgunar samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins en starfsfólki greiðslumiðlunarfyrirtækisins var kynnt ráðningin nú síðdegis. Haukur Oddsson fráfarandi forstjóri tilkynnti í október að hann hyggðist láta af störfum sem forstjóri en Haukur tók við stöðunni fyrst árið 2007 líkt og Viðskiptablaðið greindi frá .

Sæmundur hefur undanfarin ár gegnt stöðu framkvæmdastjóra þjónustu- og rekstrarsviðs Sjóvár en þar áður var hann forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Teris. Þá var Sæmundur stjórnarformaður Auðkennis.

Sæmundur er tölvunarfræðingur að mennt frá University of Texas í Bandaríkjunum. Hann er kvæntur Margréti V. Kristjánsdóttur, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík og eiga þau þrjá syni.

Haukur sinnti störfum forstjóra á meðan leitað var að eftirmanni hans, sem er nú fundinn. Í október sagðist hann kveðja Borgun með þakklæti og stolti og að fyrirtækið ætti framtíðina fyrir sér með ótæmandi möguleika.