Sæmundur Valdimarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Strikamerkis, en hann tekur við starfinu af Birni Jóhannssyni, stofnanda fyrirtækisins sem tekur sæti í stjórn fyrirtækisins.

Sæmundur er tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands með MBA gráðu frá Hult International Business School í Bandaríkjunum og býr yfir víðtækri reynslu af stjórnunarstörfum.

Hefur hann meðal annars gegnt stjórnunarstöðum í upplýsingatækni hjá Landsneti, Kópavogsbæ og Straumi fjárfestingarbanka.

„Framundan er áhugaverður og spennandi tími hjá Strikamerki og er ég fullur tilhlökkunnar að takast á við ný verkefni með þeim góða hópi fólks sem þar er,“ er haft eftir Sæmundi í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

„Ég er spenntur yfir því að vera þátttakandi í að þróa og móta framtíð fyrirtækisins.“

Strikamerki starfar á sviði upplýsingatækni og útvegar fyrirtækjum lausnir fyrir rafrænan rekstur - þar á meðal þráðlaus netkerfi og handtölvur í vöruhús, GPRS handtölvulausnir fyrir sölu og þjónustu úti í bæ, prentlausnir fyrir sjávarútveg og framleiðslufyrirtæki og hug- og vélbúnað fyrir verslanir. Hjá fyrirtækinu starfa 14 manns.