Sæmundur Sæmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri EFLU og tekur hann við af Guðmundi Þorbjörnssyni í lok apríl næstkomandi. Guðmundur hefur ákveðið að stíga til hliðar og taka að sér ný hlutverk hjá EFLU en þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækisins.

Sæmundur gegndi stöðu forstjóra Borgunar á árunum 2018-2020, var framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Sjóvár árin 2011-2017 og þar áður forstjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Teris 1998-2011. Jafnframt hefur Sæmundur setið í stjórn Festu – miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja, stjórnarformaður Auðkennis, í stjórn Aur app ehf. og í varastjórn Reiknistofu bankanna.

Sæmundur er tölvunarfræðingur að mennt frá University of Texas í Bandaríkjunum og hefur auk þess bætt við sig menntun á sviði stjórnunar. Hann er kvæntur Margréti V. Kristjánsdóttur, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og eiga þau þrjá syni.

Í EFLU samstæðunni starfa um 400 sérfræðingar með fjölbreytta þekkingu og reynslu. Meginstarfsemi EFLU er á Íslandi, með höfuðstöðvar í Reykjavík og öflugar starfsstöðvar víða um land. Að auki starfrækir EFLA dóttur- og hlutdeildarfélög á Íslandi og í Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi, Póllandi, Skotlandi og Tyrklandi.

„Stjórn EFLU þakkar Guðmundi fyrir langt og farsælt starf. Guðmundur hefur leitt EFLU í gegnum miklar breytingar með mjög góðum árangri en frá stofnun EFLU árið 2008 hefur fyrirtækið tvöfaldast að stærð, bæði hvað varðar fjölda starfsmanna og umfang rekstrar,“ segir í tilkynningunni.