Viðbrögð sænskra stjórnvalda við Covid-heimsfaraldrinum hafa fengið hörð viðbrögð vegna fjölda smita og hlutfallslegrar hárrar dánartíðni samanborið við nágrannalönd. Aftur á móti hefur hvert fyrirtæki á fætur öðrum verið að birta árshlutauppgjör sem hafa farið fram úr væntingum fjárfesta. Financial Times segir frá .

Fjarskiptafyrirtækið Ericsson, heimilistækjaframleiðandinn Electrolux, Handelsbanken og lásaframleiðandinn Assa Abloy skiluðu öll hagnaði langt umfram væntingar markaðarins þó að í sumum tilvikum hafi verið samdráttur frá fyrra ári.

„Ég hef aldrei séð svona hátt hlutfall fyrirtækja skila meiri hagnaði en gert var ráð fyrir. Þetta er nánast hvert einasta fyrirtæki,“ er haft eftir Esbjorn Lundevall, sjóðsstjóra lánveitandans SEB.

Uppskeran vekur spurningar um hversu mikið af jákvæðum uppgjörum má rekja til umdeildrar aðferðar Svía í faraldursstjórnun. Ólíkt flestum öðrum Evrópuþjóðum þá bannaði Svíþjóð ekki samkomur og hélt skólum, verslunum og mörgum fyrirtækjum opnum.

Hærri dánartíðni en í nágrannaríkjum

Dánartíðni í Svíþjóð hefur verið töluvert hærri en í nágrannaríkjum. Umfram-dánartíðni (e. excess death rate) í Svíþjóð hefur þó verið lægri en í öðrum stórum Evrópuríkjum sem hafa bannað samkomur, líkt og Bretland, Frakkland, Spánn og Belgía.

„Að halda samfélaginu opnu, skólum opnum, kom ekki í veg fyrir að við yrðum fyrir höggi. Aftur á móti höfum við getað farið út úr húsi sem hefur án efa hjálpað fyrirtækjum,“ segir Alrik Danielson, forstjóri kúluleguframleiðandans SKF sem skilaði þriðjungi hærri hagnaði á öðrum ársfjórðungi en fjárfestar höfðu búist við. Rekstrarhagnaður félagsins var þó helmingi lægri samanborið við sama tímabil í fyrra.

Minni útlánatöp

Swedbank, elsti lánveitandi Svíþjóðar og einn af þremur stærstu bönkum landsins, skilaði sex milljarða sænskra króna hagnaði fyrir skatta á öðrum ársfjórðungi. Það er örlítill samdráttur frá fyrra ári en tæplega 40% umfram væntingar greiningaraðila.

Jens Henriksson, forstjóri Swedbank, sagði að stór fyrirtæki, sem hafi tekið ný lán í upphafi Covid-ástandsins, væru byrjuð að endurgreiða þau og að smærri fyrirtæki hafi ekki sótt jafn mikið lánsfé eins og gert var ráð fyrir.

Þó að flestir bankar hafi bókfært háar varúðarafskriftir, þá voru þær undir spám greiningaraðila. Handelsbanken kom fjárfestum á óvart og skilaði lægsta útlánatapi í nokkur ár.

„Það hafa almennt verið fá gjaldþrot í landinu,“ segir Lundevall. „Mér þætti það réttmætt að telja það eiga rætur að rekja til á hvernig við tókum á faraldrinum en það endurspeglast í tiltölulega lágum útlánatöpum hjá bönkunum.

Erfiðara umhverfi hjá útflytjendum

Greiningaraðilar benda þó á að frammistaða sænsku fyrirtækjanna er tvískipt milli þeirra sem einblína á viðskipti innanlands, líkt og viðskiptabanka, og framleiðenda í útflutningsgeiranum.

Hagnaður bílaframleiðandans Volvo, iðnfyrirtækisins Alfa-Laval, Trelleborg, SKF og líftæknifyrirtækisins Getinge dróst saman á öðrum ársfjórðungi en var engu að síður umfram væntingar fjárfesta.