Forráðamenn sænsku ferðaskrifstofunnar Nazar gera sér vonir um að selja um 10 þúsund ferðir frá Íslandi árið 2016. Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóri Nazar, leitaði eftir samstarfi við Icelandair og Wow air. Flugfélögin sýndu fyrirspurnum hans engan áhuga. Fram kemur í viðtali við hann í netmiðlinum Túristi, að forsvarsmenn Nazar hafi látið gera könnun á íslenska markaðnum og hún leitt í ljós að Íslendingar kjósa heldur að fljúga með innlendum flugfélögum en erlendum. Sökum þessa varð fyrir valinu hjá Nazar að semja við tyrkneskt flugfélag.

Nazar er dótturfélag Tui-samsteypunnar, einnar stærstu ferðaskrifstofu heims. Yamanlar segir í samtali við Túrista Nazar njóta góðs stuðnings frá eigendum félagsins í útrásinni til Íslands.

Þá kemur fram í viðtalinu að þótt flugfélagið sé tyrkneskt og ferðaskrifstofan sænsk þá verði íslenskir fararstjórar í ferðum á vegum þess og þar verða starfræktir íslenskir barna- og unglingaklúbbar. Jafnframt verða íslenskir starfsmenn á söluskrifstofu félagins í Malmö í Svíþjóð.

Nazar hefur sérhæft sig í ferðum frá Skandinavíu til Tyrklands allar götur frá árinu 2004. Það sama ár hófu forsvarsmenn skrifstofunnar að skoða möguleikan á að selja ferðir frá Íslandi en ákvaðu að opna fyrst í Finnlandi árið 2006. Tveimur árum síðar hrundi íslenska efnahagskerfið og þá þótti ekki vænlegt að hefja rekstur hér á landi.