Capacent Holding AB, hið sænska móðurfyrirtæki Capacent á Íslandi, hefur bætt við sig 4,1% hlut í íslenska dótturfyrirtækinu, og á nú tvo þriðju hluta þess. Fréttablaðið segir frá þessu í morgun og vísar í vef sænska félagsins.

Capacent í Svíþjóð eignaðist ráðandi hlut í hinu íslenska ráðgjafafyrirtæki fyrir rétt tæpum tveimur árum, í febrúar 2017. Framkvæmdastjóri sænska félagsins, Edvard Björkenheim, sagði við það tilefni að mörg sóknarfæri væru hér á landi.

Greitt var fyrir 4,1% viðbótina með reiðufé, og kaupverðið er fimmfaldur rekstrarhagnaður (EBITDA – hagnaður áður en tekið er tillit til fjármagnsliða, skatta og afskrifta), en hluturinn var keyptur af Capacent á Íslandi sjálfu, sem áður hafði keypt hann af fyrrum starfsmönnum.