Seðlabanki Svíþjóðar tilkynnti í morgun um hálfs prósentu stýrivaxtahækkun, úr 0,25% í 0,75%, og varaði við því að von væri á frekari vaxtahækkunum. Um er að ræða mestu hækkun vaxta hjá bankanum í einu skrefi í meira en tvo áratugi.

„Við þurfum að hækka vexti og við þurfum að hækka vexti meira en þegar við ræddum um peningastefnuna í apríl,“ er haft eftir Stefan Ingves, seðlabankastjóra Svíþjóðar, í frétt Reuters. Hann sagði að stýrivextir verði komnir í 2% í byrjun næsta árs.

Verðbólga í Svíþjóð mældist 7,2% í maí og hefur ekki verið meiri í nærri þrjá áratugi.