Sænski seðlabankinn kom sérfræðingum á óvart í dag þegar hann lækkaði stýrivexti sína um 0,10 prósentustig og eru vextirnir núna -0,35%. Í sænska blaðinu Aftonbladet segir að sex af sjö hagfræðingum, sem leitað hafði verið til fyrir vaxtaákvörðunina, höfðu spáð óbreyttum vöxtum.

Í frétt blaðsins segir að staðan í Grikklandi hafi haft áhrif á ákvörðun seðlabankans. Erfitt sé að meta þá óvissu sem upp sé komin í efnahagslífinu vegna Grikklands, að því er segir í yfirlýsingu bankans. Bankinn hafi miklar áhyggjur af Grikklandi, enda sé staðan þar fordæmalaus. Eins viti enginn hvað muni gerast ef Grikkland yfirgefur evrusamstarfið.

Segir í yfirlýsingunni að raunveruleg hætta sé á að útgangan gæti haft áhrif á sænska hagkerfið. „Þetta eru stór óveðursský.“ Auk vaxtalækkunarinnar ætlar bankinn að auka ríkisskuldabréfakaup sín um 45 milljarða sænskra króna með haustinu.