Sænsku bankarnir nálgast fyrsta sætið á lista yfir þá banka sem skila hluthöfum sínum hvað mest í arð, sem hlutfall af hagnaði, samkvæmt greiningu á vegum Citi banka í Bretlandi. Samkvæmt athugunum Citi hafa áströlsku bankarnir greitt hvað mest af öllum bönkum, í þróuðum löndum, til hluthafa sinna ef litið er á hlutfall arðgreiðslna af hagnaði undanfarin misseri, en fjórir stærstu bankar Ástralíu, National Australia Bank, CBA bankinn, Westpac og ANZ bankinn, munu greiða að meðaltali 78% af hagnaði til hluthafa sinna fyrir síðasta ár. Sá stærsti, Westpac, hyggst greiða 87% af hagnaði sínum í arð til hluthafa.

Danske bank greiðir arð á ný
Norrænir bankar virðast þó vera að saxa á forskotið sem áströlsku bankarnir hafa haft á þá en bent hefur verið á að nokkrir norrænir bankar hafi komið greiningaraðilum að óvörum nýlega þar sem tilkynnt var um greiðslu á óvenjumiklum arði samhliða birtingu á ársuppgjörum fyrir árið 2013. Danske bank mun til að mynda greiða arð í fyrsta skipti síðan 2007 til hluthafa sinna, eða tæplega 30% af hagnaði, en hagnaður bankans jókst um 50% á milli ára þrátt fyrir samdrátt í tekjum.