Sænski fjárfestingarbankinn Mangold hefur áhuga á að hefja starfsemi á Íslandi. Leitist áhugaverðir íslenskir aðilar eftir því að koma í viðskipti til bankans muni það hvetja stjórnendur hans til að sækja um starfsleyfi hjá Fjármálaeftirlitinu. Ef af verður mun Mangold bjóða íslenska markaðnum upp á alla þá þjónustu sem hann býður upp á í Svíþjóð. Um breitt úrval fjárfestingarbankaþjónustu er að ræða.

"Við höfum ekki leyfi til að stunda viðskipti á Íslandi," segir Per-Anders Tammerlöv, forstjóri Mangold, í samtali við Viðskiptablaðið. Spurður um það hvort bankinn hafi áhuga á að sækja um slíkt leyfi segir Tammerlöv: "Að sjálfsögðu. Við höfum nýlega sótt um og fengið leyfi til að starfa í Danmörku og Finnlandi." Samkvæmt upplýsingum af vefsíðu bankans er hann einnig með rekstrarleyfi í Noregi og Póllandi.

"Ísland er einn af Nasdaq mörkuðunum," segir Tammerlöv spurður um það hvers vegna Mangold hafi áhuga á að koma til Íslands. Bankinn hafi stefnt að því um nokkra hríð en ekki sé búið að taka endanlega ákvörðun í málinu. "Þetta mun líklega ráðast af mögulegum viðskiptavinum á Íslandi. Ef einhverjir aðilar óska eftir þjónustu okkar þá gætum við sótt um [starfsleyfi]."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .