Útibú sænska fjárfestingarbankans Carnegie í Danmörku er sá besti þar í landi, samkvæmt mati 87 manna í dönsku viðskiptalífi. Á eftir fylgja sænski bankinn SEB Enskilda og Nordea. Fjöldi danskra banka rekur lestina.

Það er sænska markaðsrannsóknafyrirtækið Prospera sem gerði könnunina.

Í danska viðskiptablaðinu Börsen kemur fram að það komi nokkuð á óvart að Carnegie landi toppsætinu. Bankinn var að hluta til í eigu Milestone, fjárfestingarfélags Karls Wernerssonar og fleiri, á árunum fyrir hrun. Milestone átti undir það síðasta 9% hlut í honum í gegnum sænska félagið Moderna Finance. Hann fór á hliðina með Milestone fyrir tveimur árum, sænska ríkið tók hann yfir og dældi í hann nýju eiginfé til að koma honum á lappirnar á ný. Hann var nokkru síðar seldur fjárfestasjóðunum Altor Fund III og Bur.

Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta var. Bankinn hefur keypt rekstur tveggja fjármálafyrirtækja og vinna nú hjá honum um 20 manns. Starfsemi bankans er á Norðurlöndunum, í Lúxemborg og í Bandaríkjunum.

Í Börsen kemur fram að þrátt fyrir hremmingar á fjármálamörkuðum og skakkaföll þá hafi Carnegie engu að síður komið að skráningum nokkurra fyrirtækja á hlutabréfamarkað í Danmörku. Á meðal fyrirtækjanna eru skartgripafyrirtækið Pandora.